Sunday, May 26, 2013

Hvernig vinda á hnykil þannig að garnendinn dragist innan úr honum.


Ég lendi alltaf í vandræðum með að reyna að finna garnendann innan úr dokkum sem ég kaupi, fæ alltaf þessa skemmtilegu garn-ælu með (eins og ein komst svo vel að orði). En einu sinni sem oftar þegar ég var í einhverju prjónagrúski á netinu, þá fann ég þar flott ráð í gömlu áströlsku dagblaði um hvernig hægt er að vinda hnykil þannig að þú síðan dragir garnið innan úr honum. Þegar ég fór að skoða þetta betur er alveg hægt að finna fínar leiðbeiningar um þetta á ensku og myndir með. Ég ákvað því að setja saman smá leiðbeiningar á íslensku og hafa myndir með og vonandi gagnast þetta einhverjum ;)

Það sem þú þarft er garn, blýantur og smá límband.

Byrjaðu á að festa endann á garninu við yddaða endann á blýantinum, passaðu bara að láta nokkra cm enda hanga lausan.




Því næst vefurðu garninu nokkra hringi um blýantinn á fjærendanum, sem sagt nær strokleðrinu.




Byrjaðu svo að vefja garninu á ská utan um vafningana, 10-20 skipti er eflaust ágætt, fer svolítið eftir sverleika garnsins.




Snúðu svo blýantinum ca 1/4 úr hring og haltu síðan áfram að vefja garninu á sama hátt.




Endurtaktu þetta reglulega, sem sagt snúðu alltaf blýantinum eftir nokkra snúninga og haltu áfram að vefja. Þegar þú ert búin að gera þetta nokkrum sinnum geturðu líka farið að vefja um miðjan hnykilinn.




Passaðu alltaf að vefja ekki of fast, þá geturðu eyðilagt teygjuna í því. Það getur verið ágætt að vefja yfir einn fingur til að garnið sé örugglega ekki of þétt vafið.




Þegar þú ert búin/n að vefja öllu garninu þá festirðu endann með því að þræða hann undir efstu vafningana.




Ýttu nú blýantinum í gegnum hnykilinn með því að ýta á fjærendann (strokleðursendann).




Dragðu blýantinn varlega upp úr hnyklinum, losaðu límbandið af endanum og fjarlægðu blýantinn.




Voila! Kominn þessi fini hnykill sem hægt er að draga endan innan úr ;)




- Lilja








Friday, May 24, 2013

Ef þig langar að búa til þín eigin munstur er gott að búa til prjónamunsturblað í Excel. Rúðustrikuð blöð eru svo sem þokkaleg, en gallinn við þau er að rúðurnar eru jafn háar og þær eru breiðar. Lykkjur eru hins vegar aðeins breiðari en þær eru háar og til að sjá nokkurn vegin rétta mynd af útkomunni er betra að hafa þetta rétt.

Til að gera munsturblað í Excel þarf því að breyta hæð raðanna og breidd dálkanna. Byrjaðu á því að merkja dálkana sem þú ætlar að nota. Þetta gerirðu með því að smella á A dálkinn (fyrsta dálkinn), halda inni músatakkanum og draga eftir þeim dálkum sem þú vilt breyta.

Þú getur líka merkt fyrsta dálkinn (A) með því að smella á A-ið, farið svo að CZ dálkinum, haldið inni shift takkanum á meðan þú smellir á CZ og þá ættu þessir dálkar og allir dálkarnir á milli að merkjast. A-CZ gefur þér 104 dálka.

Þegar þú ert búin/n að merkja dálkana færirðu bendilinn á milli tveggja dálka, þá birtist tákn sem er eins og svart strik með tveimur pílum í miðjunni sem vísa til hægri og vinstri. Smelltu þar og þá ætti að birtast gulur kassi sem gefur upp breiddina á dálkunum. Haldu takkanum inni og færðu bendilinn til þar til stærðin er 1, eða 12 pixlar, eða 0.39 cm. Þú getur líka hægri smellt með músinni og valið "column width" og breytt þessu þar.



Næst er að stilla hæðina á röðunum. Þú gerir það í raun á alveg sama máta. Merkir raðirnar sem þú vilt breyta (ágætt að velja 150), færir bendilinn á milli tveggja raða, smellir og heldur inni takkanum á meðan þú færir til bendilinn og stillir hæðina. Þarna á hæðin að vera 9, eða 12 pixlar, eða 0.32 cm. 




Þá ertu komin/m með þetta fína munsturblað og mundu nú að vista. Síðan þegar þú setur inn munstur mundu bara að vista það undir nýju nafni og þá áttu alltaf grunn-munsturblaðið tilbúið fyrir næsta.

Þegar þú gerir munstur er gott að merkja svæðið, t.d. 16 lykkjur (dálkar) og 33 umferðir (raðir), eða hvað það er sem þú ert að vinna með, og síðan merkja svo útlínur rúðanna til að þær sjáist. Þá velurðu rúðukassann (sjá mynd) og velur "all borders". Síðan geturðu merkt í rúðurnar að vild. Ef þú ert að gera litamunstur er gott að lita fyrst allar með grunnlitnum og síðan bæta inn í aukalitnum sem býr til munstrið.

       

Mundu bara að vista oft á meðan þú ert að hanna svo þú lendir ekki í að þurfa að byrja frá grunni ef þú gerir einhverja vitleysu.

Góða munsturskemmtun ;)

- Lilja





Hellú. Hér verður ekkert ofurprjónablogg, en stundum mun ég setja hingað einhvern fróðleik, prjónaráð sem ég uppgötva og eitthvað annað sem mér finnst rosalega sniðugt.