Hvernig vinda á hnykil þannig að garnendinn dragist innan úr honum.
Ég lendi alltaf í vandræðum með að reyna að finna garnendann innan úr dokkum sem ég kaupi, fæ alltaf þessa skemmtilegu garn-ælu með (eins og ein komst svo vel að orði). En einu sinni sem oftar þegar ég var í einhverju prjónagrúski á netinu, þá fann ég þar flott ráð í gömlu áströlsku dagblaði um hvernig hægt er að vinda hnykil þannig að þú síðan dragir garnið innan úr honum. Þegar ég fór að skoða þetta betur er alveg hægt að finna fínar leiðbeiningar um þetta á ensku og myndir með. Ég ákvað því að setja saman smá leiðbeiningar á íslensku og hafa myndir með og vonandi gagnast þetta einhverjum ;)
Það sem þú þarft er garn, blýantur og smá límband.
Byrjaðu á að festa endann á garninu við yddaða endann á blýantinum, passaðu bara að láta nokkra cm enda hanga lausan.
Því næst vefurðu garninu nokkra hringi um blýantinn á fjærendanum, sem sagt nær strokleðrinu.
Byrjaðu svo að vefja garninu á ská utan um vafningana, 10-20 skipti er eflaust ágætt, fer svolítið eftir sverleika garnsins.
Snúðu svo blýantinum ca 1/4 úr hring og haltu síðan áfram að vefja garninu á sama hátt.
Endurtaktu þetta reglulega, sem sagt snúðu alltaf blýantinum eftir nokkra snúninga og haltu áfram að vefja. Þegar þú ert búin að gera þetta nokkrum sinnum geturðu líka farið að vefja um miðjan hnykilinn.
Passaðu alltaf að vefja ekki of fast, þá geturðu eyðilagt teygjuna í því. Það getur verið ágætt að vefja yfir einn fingur til að garnið sé örugglega ekki of þétt vafið.
Þegar þú ert búin/n að vefja öllu garninu þá festirðu endann með því að þræða hann undir efstu vafningana.
Ýttu nú blýantinum í gegnum hnykilinn með því að ýta á fjærendann (strokleðursendann).
Dragðu blýantinn varlega upp úr hnyklinum, losaðu límbandið af endanum og fjarlægðu blýantinn.
Voila! Kominn þessi fini hnykill sem hægt er að draga endan innan úr ;)
- Lilja
No comments:
Post a Comment